Misjöfn viðbrögð hafa verið við vali á fyrsta forseta Evrópusambandsins og nýjum utanríkismálastjóra en leiðtogar Evrópusambandsríkjanna völdu í gærkvöldi Herman van Rompuy, forsætisráðherra Belga, í embætti forseta ráðherraráðs ESB, og bresku barónessuna Catherine Ashton í embætti utanríkismálastjóra.
Bandarísk stjórnvöld lýstu í gærkvöldi ánægju með niðurstöðuna og sögðu hana gera Evrópu að sterkari bandamanni í heimsmálunum. Fréttaskýrendur segja hins vegar að margir hafi áhyggjur af því, að hvorki van Rompuy né Ashton séu þekkt á alþjóðavettvangi og því sé staða þeirra og embættanna, sem þau eiga að gegna, veikari en búast hefði mátt við.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði að van Rompuy væri maður málamiðlana og hefði pólitískan styrk sem væri mikilvægt í forsetaembættinu.
Tyrkir eru hins vegar óánægðir með van Rompuy. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir þingmanninum Onur Oymen að hann hefði áhyggjur af því hvaða áhrif þessi þróun mála hefði á aðildarferli Tyrkja að Evrópusambandinu.
Hann vísaði til þess, að van c hefði sagt fyrir nokkrum árum að hann væri andvígur aðild Tyrkja að ESB af trúarlegum og menningarlegum ástæðum.
Bresk blöð lýsa í dag efasemdum um hvort Ashton muni gefa embætti utanríkismálastjóra mikla vigt. Ashton sagði sjálf í gærkvöldi, að hún muni vinna eftir „hæglátri viðræðustefnu" sem utanríkismálastjóri. Hún sagðist hafa til að bera þá reynslu sem nauðsynleg væri og aflað sér sambanda en hún hefur síðustu misseri verið fulltrúi Bretlands í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og farið þar með viðskiptamál.
Embættin tvö verða formlega til 1. desember en gert er ráð fyrir þeim í Lissabon-sáttmálanum svonefnda, sem þá tekur gildi.