Stærsta flugvél heims, Airbus A380 farþegaflugvél í eigu Air France, flaug í fyrsta skiptið yfir Atlantshaf frá Evrópu til Bandaríkjanna. Flugvélin fór með 538 farþega frá París til J. F. Kennedy flugvallar í New York.
Flugvélin lenti á undan áætlun á sjöunda tímanum í kvöld. Vatni var sprautað yfir flugvélina úr slökkvibílum í hefðbundinni kveðju þegar henni var ekið að flugvallarhliðinu.
Air France er fyrsta evrópska flugfélagið sem tekur A380 flugvélina í notkun. Þrjú önnur flugfélög, Singapore Airlines, Emirates og Qantas nota vélina þegar í áætlunarflugi.
Meðal farþeganna í kvöld voru 380 manns, sem keyptu farmiða á góðgerðauppboðboði sem Air France stóð fyrir í þágu barna. Félagið mun hefja fastar áætlunarferðir með A380 flugvélum milli Frakklands og Bandaríkjanna á mánudag. Síðar verða vélarnar notaðar á flugleiðunum milli Evrópu og Jóhannesarborgar og Evrópu og Tókýó.
Farþegar í jómfrúrferðinni fengu ókeypis kampavín um borð og jasshljómsveit lék.
„Þetta var frábær flugferð," sagði " Bernard Boluvi, einn farþeginn. „Þetta er afar hljóðlát og stöðug flugvél. Maður fann varla fyrir flugtaki og lendingu."