Spáð er úrkomu og hvassviðri á vestur- og suðurhluta Englands í dag. Flóð, sem urðu í vikunni þegar 314 millimetra úrkoma mældist á einum sólarhring í Cumbriuhéraði, hafa enn ekki sjatnað.
Þorp á norðvesturhluta Englands eru mörg umflotin vatni. Flytja þurfti 200 íbúa frá þorpinu Cockermouth þar sem allt að 2,5 metra djúpt vatn var á götunum.
Lögreglumenn og björgunarfólk hafa gengið hús úr húsi á svæðinu til að kanna hvort fólk hafi lokast inni en ekki er vitað til að neins sé saknað. Einn lögreglumaður lét lífið þegar brú, sem hann stóð á, sópaðist með vatnsflaumnum.
Talið er að um 1090 hús séu án rafmagns, flest í Cockermouth, Keswick, Stainburn og Seaton.