Pólverjar selja meiri losunarheimildir

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands.
Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands. KACPER PEMPEL

Pólverjar munu selja Írum kolefnislosunarheimildir fyrir 15 milljónir evra, andvirði um 2,8 milljarða íslenskra króna. Þetta tilkynnti umhverfisráðherra Póllands, Maciej Nowicki, í dag. Sagðist hann búast við því að samningur þess efnis yrði undirritaður á næstu vikum.

Þann 9. nóvember skrifuðu Pólverjar undir samning um sölu kolefnislosunarheimilda til Spánar fyrir 25 milljónir evra.

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, sagði þá að spænski samningurinn myndi hjálpa til við stefnu Póllands í umhverfisverndarmálum, við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og bæta umhverfisvernd.

Í Póllandi eru miklar kolanámur, en Pólverjar nota jarðefnaeldsneyti til þess að framleiða 94% af því rafmagni sem notað er í landinu og búa enn nokkuð að raforkukerfi frá tíma Sovétríkjanna. Lönd Evrópusambandsins samþykktu  á síðasta ári að minnka losun sína á gróðurhúsalofttegundum um 20% fyrir 2020, miðað við losun árið 1990.

Þau ákváðu einnig að auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa og bæta orkunýtni um 20% fyrir þann tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka