Ný skoðanakönnun, sem breska blaðið Observer birti í kvöld, sýnir að bilið milli Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins fer minnkandi. Samkvæmt könnuninni mælist fylgi Íhaldsflokksins 37% en Verkamannaflokksins 31% og hefur munurinn milli flokkanna ekki verið minni í nærri ár.
Frjálslyndir demókratar mælast með 17% fylgi. Verði þetta úrslit í þingkosningum á næsta ári myndi enginn flokkur fá hreinan meirihluta á þingi.
Þótt fylgi sé að aukast á ný við Verkamannaflokkinn nýtur Gordon Brown, leiðtogi flokksins og forsætisráðherra Bretlands, ekki mikilla vinsælda meðal bresku þjóðarinnar. Aðeins 34% þeirra, sem tóku þátt í könnuninni sögðust ánægð með störf Browns en 59% sögðust óánægð.
Könnunin var gerð á vegum Ipsos Mori stofnunarinnar 13.-15. nóvember. Alls var rætt við 1006 einstaklinga í síma.