Nokkrir Palestínumenn særðust þegar ísraelskar orrustuflugvélar gerðu loftárásir á skotmörk á Gasasvæðinu í morgun. Að sögn Ísraelsmanna beindust árásirnar að vopnaverksmiðjum og smyglgöngum herskárra Palestínumanna.
Árásirnar voru gerðar í kjölfar þess að Palestínumenn skutu eldflaug frá Gasa á suðurhluta Ísraels í gærkvöldi. Sólarhring áður höfðu Hamassamtökin, sem stjórna Gasa, og önnur herská samtök lýst því yfir að þau ætluðu að hætta að skjóta eldflaugum á Ísrael með það fyrir augum að koma í veg fyrir hefndaraðgerðir Ísraelsmanna og koma á stöðugleika.
Hamas hefur virt vopnahlé undanfarna mánuði en önnur samtök hafa öðru hvoru skotið eldflaugum á Ísrael. Ísraelsmenn segja, að smíðaefni í eldflaugar sé smyglað gegnum jarðgöng, sem liggja undir landamæri Egyptalands.