Bandaríski þingmaðurinn Patrick Kennedy, sem er af einni frægustu rómversk kaþólsku ætt Bandaríkjanna segir að rómversk kaþólski biskupinn Thomas Tobin hafi meinað honum að ganga til altaris, vegna stuðnings síns við réttinn til fóstureyðinga.
Segir Kennedy biskupinn hafa bannað sér að ganga til altaris og hafi jafnframt fyrirskipað öðrum prestum í umdæmi sínu að leyfa Kennedy ekki að ganga til altaris. Hafi biskupinn skýrt ákvörðunina þannig að Kennedy ástundaði kaþólsku ekki nægilega vel og vísaði til opinberra afstöðu hans til fóstureyðinga.
Kennedy hefur ekki skýrt þessi samskipti sín og biskups frekar, né svarað hvort hann hafi farið að skipun biskups. Hins vegar segir í yfirlýsingu frá Tobin biskup að hann hafi ekki tengt umrædd málefni altarisgöngu, né rætt við presta um altarisgöngur í samhengi við opinbera starfsmenn. Biskup var ekki tilbúinn til að ræða málið frekar við AP fréttastofuna.
Samkvæmt lögum kirkjunnar er biskupi heimilt að banna Kennedy að ganga til altaris í sínu umdæmi en hann getur hins vegar ekki meinað honum það í öðrum fylkjum. Fræðilega séð gæti hann áfrýjað ákvörðun biskups til Vatikansins en samkvæmt heimildum AP er valdapýramídinn innan kaþólsku kirkjunnar þannig að ólíklegt sé að ákvörðun biskups verði ógilt.
Fóstureyðingar eru mikið deilumál í Bandaríkjunum. Deilur mannanna hófust í október þegar Kennedy gagnrýndi bandaríska biskupa fyrir að standa gegn breytingum á heilbrigðiskerfinu, nema auknar hömlur væru settar á fóstureyðingar sem væru greiddar af ríkjunum. Deilur þeirra mögnuðust og hefur biskupinn jafnvel sent þingmanninum bréf, þar sem hann skilgreinir hvað það er að vera kaþólskur.