Öldungadeild Bandaríkjanna samþykkti með 60 atkvæðum gegn 39 að hefja umræðu um frumvarp Bandaríkjaforseta um heilbrigðistryggingar. Hvíta húsið lýsti því yfir í nótt, að unnist hefði sögulegur sigur í þessari atkvæðagreiðslu þótt mjóu hafi munað.
Demókratar ráða 58 þingsætum af 100 í deildinni og greiddu þeir allir atkvæði með því að frumvarpið yrði tekið á dagskrá þótt þrír þeirra hafi lýst efasemdum um frumvarpið. Þá greiddu tveir óháðir þingmenn atkvæði með frumvarpinu. Þar með tryggðu demókratar sér nægan þingmeirihluta til að tryggja, að repúblikanarnir 40 í öldungadeildinni gætu ekki komið í veg fyrir umræðuna með málþófi.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur gert breytingar á heilbrigðiskerfinu að forgangsmáli í bandarískum stjórnmálum og eiga þær að tryggja, að 31 milljón Bandaríkjamanna, sem ekki njóta heilbrygðistrygginga nú, fái þær. Reiknað er með að frumvarpið, verði það að lögum, kosti bandaríska alríkið 848 milljarða dala til ársins 2019 en dragi á sama tíma úr halla ríkissjóðs sem nemur 130 milljörðum dala.
„Hin sögulega atkvæðagreiðsla í nótt færir okkur skrefi nær því, að koma í veg fyrir misnotkun tryggingafélaga á kerfinu, draga úr sívaxandi kostnaði við heilbrigðisþjónustu, tryggja stöðugleika í þjónustun við þá sem eru með heilbrigðistryggingu og veita þeim, sem ekki hafa slíka tryggingu, bætta þjónustu," sagði Robert Gibbs, talsmaður Hvíta hússins.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings, eða neðri deildin, samþykkti frumvarpið með litlum mun fyrir skömmu. Næstu skref verða þau að 30. nóvember kemur öldungadeildin aftur saman eftir stutt hlé í kringum þakkargjörðarhátíðina. Þá verður frumvarpið rætt og væntanlega einhverjar breytingar á því lagðar til.
Að minnsta kosti þremur vikum síðar mun öldungadeildin greiða atkvæði um frumvarpið. Ef það fær samþykki verður sett upp samráðsnefnd á milli neðri og efri deildar þingsins til að sameina breytingar hvorrar deildar á frumvarpinu í eitt frumvarp. Að því loknu kjósa báðar deildir um frumvarpið. Ef það hlýtur samþykki þarf undirskrift Baracks Obama til þess að það taki gildi sem lög.
Talið var að þrír þingmenn demókrata í öldungadeildinni kynnu að greiða atkvæði gegn því að frumvarpið kæmist á dagskrá. Þetta voru Mary Landrieu, þingmaður Louisiana, Blanche
Lincoln, þingmaður Arkansas og Ben Nelson þingmaður Nebraska. Hafa þau öll gert kröfu um breytingar á frumvarpinu. Einn þingmaður repúblikanaflokksins, George Voinovich þingmaður Ohio, greiddi ekki atkvæði í nótt.