Þjófur kýldi tveggja ára barn í andlitið

Breskri móður og tveggja ára tvíburum hennar var verulega brugðið …
Breskri móður og tveggja ára tvíburum hennar var verulega brugðið þegar þjófur réðst að þeim. RICHARD LEWIS

Breskri móður og börnum hennar var verulega brugðið þegar ófyrirleitinn þjófur kýldi tveggja ára dóttur hennar í andlitið, þegar móðirin vildi ekki sleppa handtöskunni sinni.

Móðirin var úti að ganga með tveggja ára tvíburana sína, við fjölfarna umferðargötu,  þegar maður sem hún lýsti sem andsetnum reyndi að hrifsa handtöskuna hennar af kerrunni.  Þegar móðirin togaði á móti, beygði maðurinn sig niður og kýldi telpuna í andlitið.

Aftur reyndi maðurinn að losa töskuna en þar sem henni hafði verið vafið utan um handfangið, endaði hann á því að draga hágrátandi börnin í kerrunni. Árásarmaðurinn stal síðan veski móðurinnar og lyklum áður en hann hljóp í burtu.

Bæði telpan og tvíburabróðir hennar meiddust og var farið með litlu telpuna blóðuga á sjúkrahús. Hún var með sprungna og bólgna vör og andlitið allt rispað.

Móðirin ásakar sjálfa sig fyrir að hafa ósjálfrátt hangið á veskinu og segist í viðtali við DailyMail hafa búist við að maðurinn hlypi einfaldlega í burtu eftir átökin um veskið.

„Hann fór hins vegar fram fyrir kerruna, beygði sig niður, kreppti hnefann og kýldi dóttur mína í andlitið. Tvíburarnir byrjuðu strax að öskra. Ég ásaka mig stöðugt fyrir þetta. Ég er alltaf að hugsa hvort ég hefði átt að láta hann fá handtöskuna eða hefði ég átt að slá hann. Mér finnst ég hafa brugðist sem móðir.“

Það sér einnig á móðurinni sem er nokkuð marin eftir átökin. Börnunum og móðurinni er eins og gefur að skilja verulega brugðið eftir árásina og segir móðirin að tvíburarnir öskri þegar bankað er á dyr. Þau sofi illa og matarlystin hafi versnað.

„Ég bara trúi því ekki að nokkur geri svona. Maður er alltaf að heyra um árásir á konur, en að ráðast á barn. Ég get ekki lýst því hvað mér finnst um þennan mann,“ sagði móðirin að  lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert