Barack Obama, Bandaríkjaforseti, ætlar að sækja loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember, að sögn ónafngreinds bandarísks embættismanns.
Til stendur að Obama taki við friðarverðlaunum Nóbels í Ósló 10. desember og nú liggur fyrir, að hann mun einnig fara til Kaupmannahafnar 9. desember þar sem loftslagsráðstefnan verður haldin dagana 7.-18. desember. Tugir annarra þjóðarleiðtoga hafa einnig boðað komu sína þangað.
Markmiðið með Kaupmannahafnarráðstefnunni er að gera nýjan sáttmála um losun gróðurhúsalofttegunda, sem taki við af Kyoto-sáttmálanum. Obama sagði í gær, að á fundinum yrði að nást samkomulag um leiðir til að berjast gegn loftslagsbreytingum og sem gætu orðið hornsteinn lagalega bindandi samkomulags.
Búist er við að Hvíta húsið sendi frá sér formlega yfirlýsingu síðar í dag og hugsanlega upplýsa um þau markmið, sem Bandaríkin setja um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.
Obama skrapp til Kaupmannahafnar í haust þegar Alþjóðaólympíunefndin sat þar á fundi um hvar ólympíuleikarnir skuli haldnir árið 2016. Obama talaði máli heimaborgar sinnar, Chicago, en hafði ekki erindi sem erfiði því ólympíunefndin valdi Rio de Janiero í Brasilíu.