Fíkniefnasalar sem franska lögreglan hefur hendur í hári á verða ekki aðeins kærðir fyrir hegningarlagabrot, heldur munu þeir einnig fá háan reikning frá skattinum, samkvæmt áformum ríkisstjórnar Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta.
Samkvæmt nýju lagafrumvarpi verða fíkniefni sem finnast í fórum fólks skilgreind sem tekjur sem bera þurfi tekjuskatt. Með því segist Sarkozy vilja vega að fjárhagslegri afkomu fíkniefnasalanna.
Að sögn viðskiptablaðsins Les Echos ná skattalögin nýju einnig til ólöglegra vopnasala, aðgöngumiðaokrara og allra sem staðnir verða að því að selja sviknar eftirlíkingar af vörum, sprúttsala og seljenda smyglaðra vindlinga.