Írska kirkjan hylmdi yfir kynferðisglæpi

Kaþólska kirkjan á Írlandi þagði í fjóra áratugi um víðtækar ásakanir, sem komu fram á hendur prestum um kynferðisglæpi gegn börnum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu, sem birt var í Dublin í dag.

Dermot Ahern, dómsmálaráðherra Írlands, sagði að í skýrslunni væri skráður fjöldi illvirkja, sem framinn hefði verið þar sem kirkjan taldi sig vera að þjóna betri málstað en velferð barnanna.

Í skýrslunni segir, að fjórir erkibiskupar, sem umhugað var um að koma í veg fyrir hneyksli, hafi haldið verndarhendi yfir kynferðisafbrotamönnum. Þess vegna hafi hundruð glæpa gegn varnarlausum börnum á síðari hluta síðustu aldar, ekki verið kærð þótt kirkjan hafi haft vitneskju um framferði presta. Einnig hafi lögregla á Írlandi nánast litið svo á, að prestastéttin væri hafin yfir lög og rétt.

Það var fyrst árið 1995 sem þáverandi Desmond Connell, þáverandi kardínáli, afhenti lögreglu skýrslur um afbrot presta.  

Í skýrslunni kemur fram, að einn prestur hafi viðurkennt að hafa misþyrmt yfir 100 börnum kynferðislega. Annar viðurkenndi að hann hefði brotið gegn börnum að minnsta kosti hálfsmánaðarlega á 25 ára prestferli. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka