Ísrael hefur ákveðið að takmarka uppbyggingu landnemabyggða næstu tíu mánuði í þeirri von að geta tekið aftur upp friðarviðræður við Palestínumenn. Landnemabyggðirnar hafa verið einn helsti þröskuldurinn í vegi friðarviðræðnanna.
Benjamin Netanyahu forsætisráðherra sagði að uppbyggingu í landnemabyggðunum yrði takmörkuð í tíu mánuði til að liðka fyrir friðarviðræðunum.
„Ríkisstjórn Ísraels hefur stigið mjög stórt skref til friðar í dag,“ sagði Nethanyahu. „Ég vona að Palestínumenn og Arabaheimurinn grípi þetta tækifæri til að vinna með okkur að því að móta nýtt upphaf og nýja framtíð fyrir fólkið okkar, börnin okkar og þeirra börn.“
Bandaríkjamenn fögnuðu þessu frumkvæði Ísraels. Ákvörðunin nær ekki til bygginga sem þegar eru hafnar. Einnig er svæði á Vesturbakkanum við Jerúsalem undanþegið ákvörðuninni.
George Mitchell, sérlegur sendifulltrúi Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum, sagði að þótt stöðvun framkvæmda sé ekki algjör þá líti Bandaríkjamenn svo á að með ákvörðun forsætisráðherrans sé stigið mikilvægt skref og geti haft mikil áhrif.
Þetta sé í fyrsta sinn sem ísraelsk stjórnvöld hætti að gefa út byggingarleyfi og stöðvi allar nýbyggingar og tengdar framkvæmdir í landnemabyggðum Vesturbakkans. Þetta sé jákvæð þróun.
Talsmaður Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, sagði að algjör stöðvun landnámsins, sérstaklega í Jerúsalem, væri forsenda þess að aftur yrði sest að samningaborðinu.
Mustafa Bargouthi, þingmaður á palestínska þinginu, sagði að yfirlýsing Nethanyahu væri einhver mesti blekkingaleikur í sögu hans. Hann tali um frestun eða frystingu framkvæmda.
Stjórnmálaskýrendur sögðu að með því að leggja fram formlega áætlun vonist Netanyahu til að Bandaríkjamenn auki þrýsting á Palestínumenn að setjast skilyrðislaust að samningaborðinu.