Kínverjar og Bandaríkjamenn ætla að draga úr mengun

Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, tilkynnti í morgun að hann muni …
Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, tilkynnti í morgun að hann muni sækja loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn. Reuters

Kínverjar tilkynntu í morgun, að þeir ætli á næstu 10 árum að draga úr svonefndum þéttleika gróðurhúsalofttegunda um 40-45% miðað við losunina árið 2005. Er þetta í fyrsta skipti sem Kínverjar setja sér markmið um losun gróðurhúsalofttegunda en þeir eru mestu mengunarvaldar í heimi.

Í gær tilkynntu Bandaríkin, sem eru næstmesti loftmengunarvaldur heims, að þau stefni að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 17% árið 2020, 30% árið 2025, 42% árið 2030 og 83% árið 2050. 

Allir helstu mengunarvaldar heims, að Indlandi undanskildu, hafa nú sett fram markmið fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember en henni er ætlað að leggja grundvöll að nýju samkomulagi sem taki við af Kyoto-sáttmálanum.

Yvo de Boer, sem fer með loftslagsmál hjá SÞ, sagði í dag að yfirlýsingar Kínverja og Bandaríkjamanna gætu orðið til þess að opna síðustu dyrnar að heildarsamkomulagi. Hins vegar sé ljóst, að mikið starf sé enn óunnið.

Sérfræðingar, sem AFP fréttastofan hefur rætt við, segja einnig að þetta séu jákvæð skref en ekki nægilega stór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert