Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, heimsótti í dag Skopje í Makedóníu, kvöldið fyrir fund makedónískra og grískra embættismanna í tilraun til að binda endi á 19 ára nafnadeilu landanna.
Svíþjóð situr nú í forsæti Evrópusambandsins og mun Bildt hitta forsætisráðherra Makedóníu, Nikola Gruevski og forsetan George Ivanov til að “ræða leiðir til að koma í veg fyrir að Grikkir beiti hugsanlega neitunarvaldi við upphaf samningaviðræðna í Brussel,” segir á AFP.
Grikkir hafa verið andsnúnir því að nágrannalandið fái viðurkenningu alþjóðasamfélagsins undir nafninu Makedónía allar götur síðan 1991 og kom í veg fyrir inngöngu Makedóníu í NATO á síðasta ári. Grikkir líta svo á að nafnið Makedónía tilheyri grískri arfleifð þar sem hérað í norðurhluta landsins ber nafnið.
Gruevsi mun hitta kollega sinn, forsætisráðherra Grikklands George Papandreou á morgun. Grikkir hafa hótað því að koma í veg fyrir að Makedónar fái inni í ESB nema nafnadeilan verði leyst. Umsókn Makedóníu að sambandinu var veitt viðtaka 2005 og í síðasta mánuði var gefið til kynna að samningsviðræður myndu hefjast á næstunni.