Dönskum bílþjóf brá heldur betur í brún eftir að hann stal bíl í Glostrup fyrir framan nefið á eigendunum. Í aftursæti bílsins reyndist nefnilega vera sex daga gamall hvítvoðungur. Maðurinn iðraðist svo að hann ók aðeins stuttan spöl og skildi bílinn eftir á gatnamótum nærri miðbæ Glostrup.
Barnið var enn í bílnum þegar hann fannst, sakaði ekki og var komið til foreldra sinna, að sögn lögreglustjórans Brians Larsen. „Foreldrarnir voru að flytja vörur úr tveimur bílum ásamt annarri fjölskyldu og þegar þau sneru sér við í örstutta stund ákvað þjófurinn að stela öðrum bílnum,” hefur Aftenposten eftir Larsen.
Foreldrarnir reyndu að veita þjófnum eftirför en gáfust fljótlega upp. Það gerði bílþjófurinn einnig, en aðeins eftir að hann uppgötvaði að í bílnum leyndist barn. „Bílnum var í raun bjargað um leið og það rann upp fyrir þjófnum að hann hefði óvæntan farþega í aftursætinu,” segir Larsen.
Þjófurinn komst undan og er málið til rannsóknar hjá lögreglu.