Stjórnmálamaður ákærður fyrir fjöldamorð

Stjórnmálamaður á Filippseyjum hefur verið ákærður fyrir morð en hann er talinn hafa fyrirskipað hermönnum, lögreglu og fleiri vopnuðum mönnum að myrða 57 saklausar manneskjur.

Stjórnmálamaðurinn sem um ræðir, Andal Ampatuan, bæjarstjóri í suðurhluta Filippseyja var stuðningsmaður forseta landsins, Gloria Arroyo, og liðsmaður í flokki hennar. 

Að sögn dómsmálaráðherra Filippseyja er Ampatuan sá sem skipulagði fjöldamorðin  en hann hefur verið ákærður fyrir sjö morð og verður væntanlega ákærður fyrir fleiri morð innan tíðar.

Ampatuan lýsti því yfir í gær að hann stæði ekki að baki fjöldamorðunum í heimahéraði hans  Maguindanao. Hann sagði aðspurður við blaðamenn á flugvellinum í General Santos að enginn fótur væri fyrir þeim ásökunum er hann var færður til yfirheyrslu hjá lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu er einnig rannsakað hvort faðir hans og nafni beri ábyrgð á glæpnum með syni sínum. Er hann í farbanni líkt og átta fjölskyldumeðlimir til viðbótar en fjölskyldan er mjög valdamikil í Maguindanao héraði.

Agnes Devanadera, dómsmálaráðherra Filippseyja, segir að svo virðist sem konum úr hópi fórnarlamba fjöldamorðanna hafi verið nauðgað áður en þær voru teknar af lífi. „Þetta er skelfilegt. Ég get ekki lýst þessu," sagði Devanadera í sjónvarpsviðtali í dag.

Devanadera segir að vitni segi að Ampatuan hafi fyrirskipað einkaher sínum, yfir 100 hermönnum, að skjóta á hóp fólks á afskekktum stað í héraðinu. Skömmu áður höfðu byssumennirnir handsamað hóp ættingja og vina Esmael Mangudadatu, pólitísks andstæðings Ampatuan. Auk þess sem hópur blaðamanna var á meðal þeirra. Ætlaði Mangudadatu að bjóða sig fram gegn Ampatuan í bæjarstjórnarkosningum á næsta ári. Alls hafa 57 lík fundist í fjöldagröfum og eru 22 þeirra konur. 27 fórnarlambanna voru blaðamenn og 15 voru ökumenn sem voru drepnir fyrir það eitt að vera á röngum stað á röngum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert