Bandarískar verslanir opnuðu dyr sínar upp á gátt eldsnemma í morgunsárið í dag á hinum svokallaða Svarta föstudegi, sem er jafnan stærsti verslunardagur ársins vestanhafs.
Langar raðir kaupglaðra Ameríkana teygðu sig út á götu í myrkrinu utan við stórverslanir s.s. Macy's, Target og Walmart. „Tilboðin eru eiginlega betri heldur en í fyrra, meira en 50% afsláttur," hefur fréttastofan AFP eftir Varere Jordan, 42 ára gömlum lestarstjóra sem lagði af stað í verslunarleiðangur klukkan 5 í morgun og uppskar fyrir vikið flatskjá úr Target fyrir 249 dollara, eða 30 þúsund kr.
Kannanir sýndu að um 57 milljónir Bandaríkjamanna stefndu á verslanir í dag og 77 milljónir til viðbótar sögðust tilbúin að rjúka út ef heyrðist af góðum tilboðum. Þrátt fyrir þetta liggur enn ekki fyrir hversu mikil uppskera kaupmanna er eftir daginn og því enn óvist hvaða áhrif kreppan hefur á Svarta föstudaginn.
Svarta föstudagsins var beðið með eftirvæntingu í ár, ekki aðeins hjá þeim sem vonuðust til að gera góð kaup fyrir jólin, heldur líka hagfræðinga sem telja útkomu dagsins segja mikið um stöðu bandaríska smásölumarkaðarins, sem aftur gefi til kynna hvernig Bandaríkjunum vegnar á leið sinni út úr kreppunni. Í samræmi við 10,2% atvinnuleysi í landinu hefur því verið spáð að neytendur séu vandlátnari og haldi frekar að sér höndum.
Tilboðin á Svarta föstudeginum laða jafnan til sín hjarðir viðskiptavina enda velta allt að 20% árstekja sumra fyrirtækja á þessum degi. Mikill hamagangur er jafnan í öskjunni sem getur haft alvarlegar afleiðingar líkt og í fyrra þegar starfsmaður Walmart í New York tróðst undir.