Frakkar yfir innri markaði ESB og fjármálaþjónustu

Michel Barnier.
Michel Barnier. AP

Frakkar hafa fengið í sinn hlut framkvæmdastjóra málefna innri markaðar Evrópusambandsins (ESB) og fjármálaþjónustu með nýskipan framkvæmdastjórnar ESB. Af því eru Bretar lítt hrifnir, sérstaklega breskir íhaldsmenn.

Starfið, sem Michel Barnier fyrrverandi landbúnaðarráðherra í stjórn Nicolas Sarkozy hreppti, er meðal lykilembætta í æðstu stjórn ESB.  

Barnier mun hafa á sinni könnu málefni og eftirlit með fjármálaþjónustu í Evrópu en kjarni hennar fer fram í fjármálahverfi Lundúna.

Breskir íhaldsmenn hafa lýst andúð sinni á niðurstöðunni og sakað Gordon Brown forsætisráðherra um eftirgjöf gegn Frökkum og Þjóðverjum.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Timothy Kirkhope, leiðtoga breskra íhaldsmanna á Evrópuþinginu, að niðurstaðan sé áhyggjuefni. Með henni sé hin engilsaxneska rödd horfin úr efnahagssveit framkvæmdastjórnar ESB. Hún sé og áhyggjuefni vegna nýlegra laga frá framkvæmdastjórninni sem ætlað er að þrengja umsvif á sviði efnahags- og fjármála.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert