Hvítlaukur nýjasta gullæðið í Kína

Hvítlaukssölmaður á markaði í Peking.
Hvítlaukssölmaður á markaði í Peking. Reuters

Fasteignabrask er ekki lengur vænlegasta leiðin til hagnaðar í Kína, heldur hvítlauksbrask. Hvítlaukur þykir nú þyngdar sinnar virði í gulli og rúmlega það eftir að út spurðist að neysla hans komi í veg fyrir svínaflensusmit. Í kjölfarið hefur verðið á hvítlauk rokið upp í Alþýðulýðveldinu og hafa fjárfestar byrjað að kaupa upp hvítlauksbyrgðir og selja á uppsprengdu verði.

Talið er að á sumum markaðssvæðum hafi verðlagið á hvítlauk allt að því fjörutíufaldast síðan orðrómurinn kvisaðist út. Sérfræðingur hjá bandaríska fjárfestingabankanum Morgan Stanley segir í viðtalið við Washington Post að hvítlauksbraskarar geti orðið milljónamæringar á skömmum tíma miðað við ástandið.

„Það sem þú þarft er vöruhús, reiðufé og nokkrir vörubílar. Með því að færa hvítlauk úr einu vöruhúsið í annað og pumpa upp verðið geturðu grætt milljónir dollara.”  Sem dæmi um tröllatrú Kínverja á lækningamætti hvítlauks má nefna að skólastjórn gagnfræðaskóla í Hangzhou hefur keypt um 200 kg af hvítlauk og skammtar nemendum sínum hann í hverju hádegishléi.

Hvítlauksæðið þykir minna nokkuð á túlípanabóluna í Hollandi á 17. öld, sem talin er fyrsta skrásetta efnahagsbólan. Árið 1637 urðu þúsundir fjárfesta gjaldþrota þegar verðið á túlípönum féll eftir mikla uppsveiflu sem margir virtust trúa að myndi halda áfram að eilífu. 

Kínverjar framleiða þrefalt meira magn af hvítlauk en öll önnur lönd til samans, en í kjölfar kreppunnar var minna af útsæði plantað í fyrra þar sem hvítlauksbændur óttuðust að eftirspurn myndi minnka og verð lækka. Útsjónarsamir spákaupmenn græddu því stórfé á því að kaupa upp alla uppskeruna áður en hún varð fullþroska.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert