Bin Laden slapp naumlega

Mynd af Osama bin Laden frá 1998.
Mynd af Osama bin Laden frá 1998. AP

Hryðjuverkaleiðtoginn Osama Bin Laden slapp naumlega frá því að vera handtekinn síðla árs 2001. Þetta kemur fram í skýrslu öldungadeildar bandaríska þingsins.

Í skýrslunni, sem sagt er frá á vef BBC, kemur fram að beiðni um liðsauka hafi verið hafnað og það hafi gert Bin Laden kleift að ganga ósærðum inn á svæði í Pakistan sem ættbálkar ráða yfir. 

Mislukkaðar tilraunir til að handtaka Bin Laden hefur að mati skýrsluhöfunda stuðlað að ófriði í Afganistan. Skýrslan er birt stuttu áður en Barck Obama forseti tilkynnir um fjölgun hermanna í Afganistan, en von er á formlegri tilkynningu þessa efnis á næstu dögum.

Skýrslan felur í sér harða gagnrýni á stjórn fyrrverandi forseta, George W Bush, og yfirmenn hersins á þeim tíma.

Í skýrslunni segir að á meðan fjölmennu bandarísku herliði var haldið á hliðarlínunni hafi yfirmenn hersins kosið að treysta á herþotur sem vörpuðu sprengjum og óþjálfaða afganska hermenn sem hröktu Bin Laden inn á hellasvæðið við Tora Bora.

"Þann 16. desember 2001, tveimur dögum eftir að hafa undirritað erfðaskrá sína, gekk Bin Landen óskaddaður út úr Tora Bora og hvarf inn í Pakistan á svæði ættbálka sem lýtur engri stjórn" þar sem talið er að hann sé enn þann dag í dag, segir í skýrslunni.

Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bush-stjórnarinnar, sagði á þessum tíma að fjölmennt bandarísk herlið á svæðinu gæti komið mönnum í koll. Hann sagði jafnframt að sannanir um hvar Bin Laden væri að finna væru ekki traustar.

Í skýrslunni segir að sú staðreynd að mönnum hafi mistekist að hafa hendur í hári Bin Laden hafi lagt grundvöll undir þann ófrið sem er í Afganistan í dag og ýtt undir átök í Pakistan.

Tekið er fram í skýrslunni að handtaka Bin Landens hefði ekki eytt allri hættu af hryðjuverkum. En ákvarðanir "sem opnuðu dyrnar fyrir hann inn í Pakistan hafi gert honum kleift að styrkja sig sem tákngerving sem kallaði fram stöðugt flæði fjármagns og hvatti öfgaöfl um allan heim til dáða."

Í skýrslunni er hafnað ásökunum Bush-stjórnarinnar um að upplýsingar leyniþjónustunnar um hvar Bin Laden hélt sig hafi verið ónákvæmar. Skýrslur og viðtöl við menn sem tóku þátt í átökum á þessum tíma sýni að bandaríski herinn hafi verið nálægt því að klófesta Bin Laden.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert