Svisslendingar vilja ekki fleiri bænaturna

Útgönguspár benda til þess, að Svisslendingar hafi í dag samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að leggja bann við byggingu bænaturna múslima í Sviss. Atkvæðagreiðslan stendur þó enn yfir.

Samkvæmt útgönguspá sjónvarpsstöðva greiddu 59% atkvæði með banninu en tillaga um það var lögð fram af Svissneska þjóðarflokknum, stærsta stjórnmálaflokki landsins og þess sem er lengst til hægri. 

Skoðanakannanir fyrir atkvæðagreiðsluna höfðu hins vegar bent til þess að tillagan yrði felld.

Flokkurinn heldur því fram, að bænaturnarnir séu tákn fyrir valdapólitík múslima. Svissneska ríkisstjórnin bað kjósendur um að fella tillöguna og sagði að erlendar þjóðir myndu ekki skilja slíkt bann og ímynd Sviss myndi bíða hnekki.

7,5 milljónir manna búa í Sviss. Um 400 þúsund múslimar búa í landinu og er íslamstrú önnur útbreiddustu trúarbrögð í landinu á eftir kristni. Þegar hafa fjórir bænaturnar verið byggðir í Sviss og sá fimmti er í undirbúningi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert