Ný-Sjálenskur faðir þurfti að velja milli þess að bjarga eiginkonu sinni eða syni þeirra þegar bíll fjölskyldurinnar hrapaði í fljót.
Stacy Horton valdi að bjarga eiginkonu sinni, Vanessu, sem barðist um í fljótinu eftir að henni tókst að komast út úr bílnum af sjálfsdáðum. Á sama tíma var 13 ára sonur þeirra, Silva, fastur í bílnum á um 4,5 metra dýpi.
„Ég reyndi að kafa niður og ná honum út, en ég gat ekki komist niður að bílnum. Þá valdi ég að beina kröftum mínum að því að bjarga Vanessu,“ sagði Horton í sjónvarpsviðtali í heimalandi sínu. Segist hann hafa óttast að láta lífið í björgunaraðgerðunum og ekki getað hugsað til þess að tvær dætur þeirra hjóna yrðu munaðarlausar.
„Mér tókst að að koma henni upp á árbakkann. Þegar ég leit við sá ég glitta í afturljósið á bifreiðinni og ég varð að sætta mig við það að hann væri horfinn og að það væri ekkert sem ég gæti gert fyrir hann.“ Fjölskyldubíllinn rann til á grasivaxinni brekku og yfir 10 metra klett niður í ána nærri heimkynnum fjölskyldunnar í Wanganui á vesturströnd Norður-Eyjunnar sl. laugardagskvöld.
Vini Silvas, Robert Palmer, tókst að komast úr sökkvandi bifreiðinni og hljóp eins og fætur toguðu til Horton og sagði honum hvað gerst hafði.
„Ég gat heyrt konuna mína öskra í vatninu, svo ég greip vasaljós af manni sem var þarna og stökk út í,“ sagði Horton. Eftir að honum tókst að bjarga eiginkonu sinni kom lögreglan á staðinn og gerði hún tilraun til þess að komast niður að bílnum en án árangurs.
„Þetta er hrikalegt áfall fyrir alla þá sem að þessu máli koma,“ er haft eftir Andrew McDonald hjá lögreglunni í Wanganui.