Risamarglyttur ógna japönskum sjávarútvegi

Risamarglyttur ógna nú sjávarútveginum í Japan en vísindamenn telja að marglyttunum hafi mögulega fjölgað vegna hlýnunar jarðar. Sumar marglyttur eru sagðar á stærð við súmóglímukappa. 

Echizen-marglyttunum hefur fjölgað gríðarlega mikið í hafinu í kringum Japan. Talið er að þær eigi rætur sínar að rekja til hafsvæðanna við Kína og Kóreu. 

Marglytturnar geta orðið allt að 2,2 metrar í þvermál og vegið allt að 300 kílóum. Dýrin eru óæt og hafa gert sjómönnum lífið leitt. Þær festast í netum þeirra og eyðileggja aflann.

Sumir sérfræðingar halda því fram að ástandið á þessari vertíð hafi kostað japanska sjávarútveginn rúmlega 100 milljónir dala.

Nýverið sökk skip í Kyrrahafi vegna dýranna, sem höfðu flækst í net. Þungi marglyttnanna var svo mikill að það kom slagsíða á skipið og því hvolfdi stuttu síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert