Hollenskur eftirlifandi Helfararinnar brotnaði í dag niður í réttarsal í München þegar hann lýsti því fyrir viðstöddum hvernig móðir hans var flutt í gasklefana í Sobibor útrýmingarbúðunum, þar sem John Demjanjuk er sakaður um að hafa verið vörður.
Rudolf Salmo Cortissos, sem er 70 ára gamall, hélt bréfi frá móður sinni á lofti í réttarhöldunum í dag, en bréfinu kastaði hún út úr lestinni sem flutta hana í dauðann. “Þetta er það eina sem ég á eftir,” lýsti Cortissos yfir þegar hann var leiddur grátandi úr réttarsalnum.
Í béfinu, sem skrifað er örfáum klukkustundum áður en móðir Cortissos var flutt í Sobibor búðirnar, stendur: “Það er mánudagskvöld og við erum tilbúin að fara um borð í lestina. Ég lofa þér því að ég verð hörð af mér og ég mun lifa þetta af.”
“Það er ekkert sem hægt er að gera. Svona verður þetta að vera,” skrifaði móðir hans og endaði bréfið á áminningu til hans um að gleyma aldrei afmælisdögum fjölskyldumeðlima og loks sem aldrei varð að veruleika: “Ég vonast til að sjá ykkur öll fljótt aftur”.
Þremur dögum síðar hafði móðir Cortissos verið tekin af lífi. Fjöldi vitna og eftirlifanda sögðu sína sögu fyrir réttinum í dag, en sem fyrr lá hin 89 ára gamli Demjanjuk á sjúkrabörum, nánast algjörlega hreyfingarlaus.
Við upphaf réttarhaldanna í dag las dómarinn upp nokkur nöfn af lista þeirra 27.900 Gyðinga og annarra, margra frá Hollandi, sem dóu á þeim tíma sem Demjanjuk er sagður hafa verið fangavörður í búðunum.
Annar eftirlifandi, hinn 78 ára gamli David van Huiden, sem missti alla fjölskylduna sína í búðunum, sagði fyrir réttinum: “Ég hélt, þegar stríðið var búið, að fjölskylda mín myndi koma aftur. Það sagði enginn við mig að lestarferðin yrði bara aðra leiðina.” Van Huiden fullyrti við fjölmiðla að Demjanjuk ýkti heilsufarsvandræði sín til að komast undan. Margir eftirlifendur Helfararinnar hafa reiðst vegna hegðunar Demjanjuk við réttarhöldin.