Stór farsímasending frá Kína stöðvuð

Maður gengur fram hjá löglegum farsímum.
Maður gengur fram hjá löglegum farsímum. Reuters

Indversk yfirvöld hafa stöðvað stóra farsímasendingu frá Kína þar sem símarnir eru ekki með auðkennisnúmer, sem eru notuð til að rekja símtöl. Alls er um 25 milljón síma að ræða sem voru framleiddir í Kína.

Embættismenn í fjarskiptaráðuneytinu segjast hafa bannað símana, sem eru einfaldir og ódýrir. Ástæðan fyrir þessu sé sú að símarnir séu ekki með 15 stafa IMEI-auðkennisnúmer, en IMEI stendur fyrir International Mobile Equipment Identification.

IMEI-númerið er notað til að greina öll símtöl úr viðkomandi síma. Þá gefur númerið einnig upplýsingar um framleiðanda tækisins og um hvers konar farsímagerð sé að ræða. Flest símtæki skrá IMEI-númerið sjálfkrafa hjá farsímaþjónustu þegar þau eru tekin í notkun.

Talsmaður í fjarskiptaráðuneytinu segir að sendingin hafi verið stöðvuð í öryggisskyni því ekki sé hægt að rekja símtöl úr þessum tækjum. Hann segir jafnframt að þeir sem eigi slíka síma fái hálfan mánuð til að skipta út tækjunum fyrir önnur sem séu með skráð IMEI-númer.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert