Barack Obama stefnir að því að stríðinu í Afganistan verði lokið innan þriggja ára. Hermennirnir 30.000 sem senda á til viðbótar eiga samkvæmt áætlun Obama að vera komnir þangað innan sex mánaða. Obama mun formlega kynna þessar fyrirætlanir sínar í ræðu í kvöld, en efni hennar hefur verið lekið til fjölmiðla.
Obama þykir taka töluverða pólitíska áhættu með því að ákveða að auka enn við herliðið í Afghanistan, aðeins 9 dögum áður en hann heldur til Ósló til að taka á móti friðarverðlaunum Nóbels.
Obama hefur verið gagnrýndur fyrir að þora ekki að taka af skarið í málefnum Afganistan en ákvörðun hans nú um að senda þangað herlið með svo miklu hraði kemur sumum á óvart þar sem talsmenn forsetans höfðu áður varið hæganginn með þeim rökum að varnarmálaráðuneytið gæti ekki sent hermenn svo hratt.
Aðspurður um þversögnina sem í þessu felist segir heimildamaður CNN: „Forsetinn segir að þetta verði að gerast, svo herinnn mun sjá til þess að það gerist.” Talsmaður Pentagon segir það verða mikla áskorun uppfylla kröfur forsetans, það væru mjög harðar aðgerðir að senda svo stórt herlið til landsins á svo skömmum tíma.
Með þessu væri Obama hinsvegar að reyna að framkvæmda þetta enn hraðar en yfirmaður bandaríska hersins í Afghanistan áætlaði, en hann skrifaði í ágúst síðastliðnum að tækist Bandaríkjunum ekki „að ná yfirhöndinni og snúa við vexti skæruliða innan næstu 12 mánaða er hætta á því að ekki verði lengur mögulegt að vinna bug á þeim.”
Stríðið í Afghanistan hófst í tíð George W. Bush eftir árásina á tvíburaturnana árið 2001.