Morðingi á hjóli ekinn niður

Þýskir lögreglumenn skoða reiðhjólið sem morðinginn var á þegar hann …
Þýskir lögreglumenn skoða reiðhjólið sem morðinginn var á þegar hann var handtekinn. AP

Þýska lögreglan handtók einn eftirlýstasta glæpamann landsins í gær í kjölfar víðtækrar leitar sem stóð yfir í fimm daga. Morðinginn Peter Paul Michalski, sem flúði fangelsi, var að hjóla á sveitavegi við landamæri Hollands þegar lögreglumenn óku hann niður.

Michalski, sem er 46 ára gamall, féll af hjólinu gafst upp án nokkurrar mótspyrnu, en lögreglumennirnir sem óku á hann voru í ómerktri lögreglubifreið.

Michalski var að afplána lífstíðardóm í öryggisfangelsi í Aachen þegar honum tókst að flýja í síðustu viku. Hann var vopnaður skammbyssu.

Undanfarna fimm daga hafa þungvopnaðir sérsveitarmenn framkvæmt fjölmargar húsleitir í Norður-Rín Vestfalíu. Þeir náðu félaga Michalski, sem tókst einnig að flýja fangelsið, sl. sunnudag.

Það kann eflaust að koma mörgum spánskt fyrir sjónir en föngunum tókst að flýja með því að smíða annað eintak af lykli sem þeir komust yfir. Lykillinn var svo notaður til að opna nokkrar hurðir og út í frelsið, að því er fram kemur í þýskum fjölmiðlum. Fangarnir voru svo bíræfnir að stilla sér upp fyrir framan öryggismyndavél, sem er fyrir framan aðalhliðið, og veifa bless rétt áður en þeir yfirgáfu staðinn í leigubíl. 

„En þú óheppinn. Við vorum að flýja úr fangelsi,“ á Michael Heckhoff, sem flúði með Michalski, að hafa sagt við leigubílstjórann.

Mörg þúsund lögreglumenn tóku þátt í leitinni. Þá var lögregluyfirvöldum í nágrannaríkjunum einnig gert viðvart.

Almenningur var varaður við Michalski, en hann er sagður vera stórhættulegur. Félagarnir stálu bifreið og rændu nokkra einstaklinga á ferð á meðan flóttanum stóð. 

Peter Paul Michalski var dæmdur fyrir morð. Hann var vopnaður …
Peter Paul Michalski var dæmdur fyrir morð. Hann var vopnaður og stórhættulegur að sögn lögreglu. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka