Á föstudag munu ungir, sænskir frumkvöðlar setja á markað nýtt gallabuxnamerki sem saumað er í Norður-Kóreu. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem N-kóreskur tískufatnaður kemur á markað á Vesturlöndum.
Kommúnistaríkið N-Kórea hefur nánast algjörlega verið einangrað frá erlendum áhrifum og viðskiptum síðustu 60 ár en hönnuðirnir sænsku segja að einmitt það hafi heillað þá. „Norður Kórea er sennilega einangraðasta ríki í heiminum,” segir á heimasíðu fyrirtækisins, Noko Jeans. „Með þetta í huga, og vegna mikils persónulegs áhuga, þá veltum við því fyrir okkur hvort við gætum ekki fengið að vita meira um íbúana. Getum við jafnvel fengið að kynnast þeim?”
Tískuhönnuðirnir höfðu samband við yfirvöld í N-Kóreu um mitt ár 2007 og eftir samningaviðræður í heilt ár var þeim loks leyft að koma til landsins og koma á viðskiptasambandi.
Gallabuxur eru ekki leyfðar á götum N-Kóreu samkvæmt lögum landsins, en hönnuðirnir segjast samt vonast til þess að einn daginn geti þeir „framleitt föt sem vinir okkar þar í landi geta líka klæðst.” Þeir fullyrða að í verksmiðjunni þar sem gallabuxurnar eru framleiddar í Pyongyang séu mannréttindi starfsmanna virt.
Fyrstu 1.100 eintökin af gallabuxunum verða seld aðeins í Svíþjóð og á netinu og kosta um 1.500 sænskar krónur, eða rúmar 26 þúsund krónur íslenskar.