ESB gagnrýnir að Zelaya hafi verið hafnað

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gagnrýnir að þingið í Hondúras hafni því að útlægur forseti landsins, Manuel Zelaya, fái að taka við völdum á ný. Telur framkvæmdastjórnin að þetta sýni að það sé enginn vilji fyrir því að leysa stjórnmáladeiluna sem ríkir í Hondúras. Greidd voru atkvæði um hvort Zelaya fengi að taka við völdum á ný á þinginu í Hondúras í nótt. Meirihluti þingmanna greiddi atkvæði gegn endurkomu Zelaya sem heldur til í sendiráði Brasilíu í Hondúras.

Lutz Guellner, talsmaður yfirmanns utanríkismála ESB, Catherine Ashton, sagði við fjölmiðla í dag að ESB muni óska eftir því við deilendur í Hondúras að þeir endurreisi lýðræðið og stjórnarskrá landsins.

Íhaldsmaðurinn Porfirio Lobo Sosa sigraði í forsetakosningunum sem fram fóru í Hondúras nýverið. Lobo hét því að koma á sáttum og binda enda á fimm mánaða stjórnarkreppu sem hófst þegar Manuel Zelaya var steypt af stóli forseta.

Lobo er auðugur bóndi, var eitt sinn kommúnisti en söðlaði um og er nú í flokki sem telst lengst til hægri. Hann var forseti þings Hondúras á árunum 2002-2006 og beið ósigur fyrir Zelaya í forsetakosningum árið 2005.

Lobo hefur lofað að beita sér fyrir þjóðareiningu, myndun þjóðstjórnar og auknum erlendum fjárfestingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert