Reykjavík er á meðal þeirra borga sem að koma til greina þegar nýtt samkomulag um fækkun kjarnavopna verður undirritað á næstunni. Genf og Helsinki koma einnig til greina en búast má við að Obama Bandaríkjaforseti og Medvedev Rússlandsforseti verði viðstaddir undirritunina, jafnvel í næstu viku.
Fjallað er um málið á vef New York Times en þar segir að samninganefndir ríkjanna vinni að því nótt sem nýtan dag að ganga frá lausum endum á samkomulaginu.
Undirritunin yrði framhald af afvopnunarferli sem að Mikhaíl Gorbatsjov og Ronald Reagan ræddu á fundi sínum í Höfða í Reykjavík árið 1986.
Samkomulagið yrði því sögulegt en blaðið segir að með því myndi kjarnaoddum fækka niður í tölu sem ekki hafi sést í um hálfa öld.
Fram kemur að vonir standi til að leiðtogar ríkjanna undirriti samkomulagið jafnvel í næstu viku um það leiti sem að Obama veitir friðarverðlaunum Nóbels viðtöku, enda komi tímasetningin sér vel nú þegar hann sé nýbúinn að fjölga í herliðinu í Afganistan.
Þrátt fyrir að undirritunin kunni að vera á næsta leiti minnir blaðið á að öldungadeild Bandaríkjaþings og rússneska þingið þurfi að staðfesta samkomulagið. Það geti tekið mánuði.
Frétt New York Times má lesa hér.