Bresk eftirlitsstofnun vill banna sölu á umdeildri bjórtegund á krám, næturklúbbum og verslum í Bretlandi. Áfengismagnið í bjórnum, sem er bruggaður í Skotlandi, er 18,2%.
Portman Group segir að kvartað hafi verið undan þeim skilaboðum sem sé að finna á bjórtegundinni Tokyo*, sem BrewDog í Fraserburgh bruggar, en þar er hvatt til ofdrykkju. Stofnunin hefur farið fram á að markaðssetning bjórtegundarinnar verði breytt.
Á bjórnum eru skilaboð þar sem segir að af og til verði fólk að fá að njóta óhófs. „Þessi bjór er fyrir þær stundir“ eru skilaboðin.
David Poley, framkvæmdastjóri Portman Group, segir að það sé ekki í verkahring stofnunarinnar að hafa eftirlit með áfengismagni drykkja. „En við ráðum því hvernig þeir eru markaðssettir. Það er augljóslega óklókt fyrir hvaða fyrirtæki sem er að hvetja neytendur til ofdrykkju,“ segir hann.
Martin Dickie, annar stofnanda BrewDog, segir að ákvörðun Portman Group sýni glöggt fram á að stofnunin sé á villigötum.
„Líkt og með allar sérbruggaðar bjórtegundir okkar þá er aðeins hægt að kaupa bjórinn á vefsíðunni okkar og hjá fimm sérvöldum smásölum í Bretlandi,“ segir Dickie.
„Þeir ættu kannski frekar að beina kröftum sínum að þeim tegundum sem selja kippur með 24 bjórum fyrir sjö pund, þar sem bókstaflegt óhóf á þátt í þeim áfengisvanda sem Skotar standa frammi fyrir.“
BrewDog komst einnig í fréttirnar nýverið þegar ölgerðin kynnti enn sterkari bjór sem er 32% og kallast því viðeigandi nafni „Tactical Nuclear Penguin“.