Barack Obama Bandaríkjaforseti fagnar því að atvinnuleysi mælist minna í landinu. Atvinnurekendur sögðu upp 11.000 manns í nóvember sl. sem er mun lægri tala en menn bjuggust við. Ekki hafa færri misst vinnuna í Bandaríkjunum í einum mánuði síðan í desember 2007. Obama segir fréttirnar uppörvandi.
Obama heimsótti Allentown í Pennsylvaníu í dag þar sem hann flutti ræðu um efnahagsmál. Þrátt fyrir jákvæð tíðindi segir forsetinn að enn sé mikil vinna framundan. „Ég er enn þeirrar skoðunar að eitt starf sem fer forgörðum sé einu starfi of mikið. Og eins og ég sagði í gær á vinnumálaráðstefnu í Washington, þá borgar maður ekki leiguna með góðum tíðindum.“
Obama viðurkenndi að það sé óviðunandi að 11.000 manns hafi misst vinnuna og að atvinnuleysið í landinu mælist nú 10%.