Bernanke gagnrýnir Gordon Brown

Ben Bernanke.
Ben Bernanke. Reuters

Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir að ákvarðanir sem Gordon Brown tók þegar hann var fjármálaráðherra landsins hefðu leitt til þess að Bretar hefðu ekki verið í stakk búnir að takast á við fjármálakreppuna sem skall á af fullum þunga á síðasta ári.

Bernanke segir þá ákvörðun Browns um að láta Seðlabanka Englands hætta að hafa eftirlit með bönkunum í landinu hafi haft skelfilegar afleiðingar. Vegna þessa standi breska hagkerfið frammi fyrir meiriháttar vanda.

Bandaríski seðlabankastjórinn lét ummælin falla í bandaríska þinginu og þykir málið hið vandræðalegasta fyrir Brown. Hann hefur ítrekað neitað því að ákvarðanir sem hann tók sem fjármálaráðherra hafi átt þátt í þeim efnahagsvanda sem Bretar standa nú frammi fyrir. Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Telegraph.

Bernanke lét ummælin falla eftir að opinber úttekt á skuldum breskra skattborgara var kynnt, en þeir eru sagðir standa frammi fyrir 850 milljarða punda skuld vegna aðgerða stjórnvalda til að koma bönkunum til aðstoðar. 

„Þegar kreppan skall á - t.d þegar Northern Rock lenti í vanda - þá var Seðlabanki Englands ekki með á nótunum og gat ekki tekið á því sem reyndist svo vera skaðlegt ferli og meiriháttar vandamál fyrir breska hagkerfið,“ sagði Bernanke.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert