Tugir þúsunda mótmælenda gengu um miðborg Rómar í dag til að mótmæla Silvio Berlusconi forsætisráðherra. Boðað var til mótmælanna á netinu undir yfirskriftinni „Enginn Berlusconi dagur“. Margir mótmælendanna klæddust fjólubláum flíkum en engin stjórnmálasamtök hafa helgað sér þann lit.
Þeir sem stóðu fyrir mótmælunum töldu að 350 þúsund manns hafi stutt þau, aðallega af vinstri væng stjórnmálanna. Göngumenn báru borða með áskorunum til Berlusconi um að hætta. Á borðunum var vísað til vandræða forsætisráðherrans og ásakana um skattsvik hans og spillingu.
Í hópi mótmælenda var Nanni Moretti kvikmyndaleikstjóri sem fordæmdi einveli Berlusconis í ítölsku sjónvarpi. Einnig voru þar umhverfissinnar sem mótmæltu fyrirhugaðri brú yfir Messina sund sem og talsmenn hópa sem berjast fyrir hagsmunum innflytjenda.