Reyndi að fela málverkasafnið

Calisto Tanzi.
Calisto Tanzi. AP

Ítölsk stjórnvöld segjast hafa lagt hald á málverkasafn Calisto Tanzi, stofnanda stórfyrirtækisins Parmalat, en Tanzi afplánar nú 10 ára fangelsisdóm fyrir stórfelld fjársvik í tengslum við rekstur fyrirtækisins.

Um er að ræða 19 málverk og teikningar, þar á meðal Picasso, Monet og Van Gogh og eru þau metin á yfir 100 milljónir evra, yfir 12 milljarða króna. Ítölsk blöð sögðu frá því í vikunni en Tanzi hefði neitað því að hann ætti falið listaverkasafn en málverkin fundust í húsum vina og fjölskyldu Tanzy.  

Embættismenn segja, að málverkin hafi sum verið boðin til sölu og því hafi stjórnvöld orðið að hafa hraðar hendur við að leggja á þau hald. Leit var hafin að listaverkunum eftir sjónvarpsþátt um síðustu helgi þar sem líkur voru leiddar að því að listaverkasafnið væri til og eftir símhleranir fannst það.

Stefano Strini, tengdasonur Tanzy, sætir nú rannsókn en grunur leikur á að hann hafi aðstoðað tengdaföður sinn við að koma listaverkunum undan.  Meðal myndanna eru teikning af ballerínu eftir Degas, mynd af trjábol eftir Van Gogh og uppstilling eftir Picasso.

Parmalat var um tíma eitt af stæstu fyrirtækjum á Ítalíu og framleiddi m.a. og seldi mjólkurafurðir. Árið 2003 kom í ljós, að ársreikningar félagsins höfðu verið falsaðir kerfisbundið og í raun vandaði 14 milljarða evra í sjóði þess. Var þetta stærsta gjaldþrotamál Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert