Bandaríkjastjórn hefur engar öruggar upplýsingar um hvar leiðtogi Al-Qaeda, Osama Bin Laden, heldur sig. Hafa stjórnvöld ekki vitað það í mörg ár, að sögn Roberts Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Hann segir að ef þau vissu það hefði hann verið handtekinn. Þetta kemur fram í stiklu úr viðtali við Gates sem verður birt í dag á ABC sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum.
Í síðustu viku hélt talibani, sem var handtekinn í Pakistan því fram að hann hefði upplýsingar um að Bin Laden hefði verið í Afganistan fyrr á þessu ári. Gates getur ekki staðfest að þetta sé rétt. Fanginn, sem sagðist hafa hitt Bin Laden oft fyrir 11. september 2001, að hann hefði hitt félaga sem væri traustsins virði og sá hefði hitt Bin Laden í Afganistan í janúar eða febrúar í Afganistan.
Hingað til hefur verið haldið að Bin Laden héldi sig í Pakistan, skammt frá landamærum Afganistan. Að sögn fangans er Bin Laden við hestaheilsu.