Bandaríkjastjórn hefur lýst því yfir að gróðurhúsalofttegundir séu skaðlegar mönnum. Talið er að þessi yfirlýsing muni gera bandarísku umhverfisstofnuninni kleift að fyrirskipa samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, án samþykkis Bandaríkjaþings.
Lisa Jackson, stjórnandi umhverfisstofnunar, segir að stofnunin geti nú gripið til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Fréttirnar berast á sama tíma og þjóðarleiðtogar hittast í Kaupmannahöfn á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Menn vonast til þess að bindandi samkomulag náist um minni losun.
Jackson segir að vísindalegar sannanir séu fyrir því að loftlagsbreytingar sýni glöggt að gróðurhúsalofttegundir ógni heilsu almennings og velferð Bandaríkjamanna.
Hún segir að niðurstöðurnar muni leiða til þess að árið 2009 verði í minnum haft sem árið sem Bandaríkjastjórn hóf að takast á við þann vanda sem gróðurhúsalofttegundir valda.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að tilkynningin, sem hefur verið í undirbúningi í marga mánuði, hafi verið sérstaklega tímasett til að styrkja stöðu Baracks Obama Bandaríkjaforseta á ráðstefnunni. Nú geti forsetinn haldið því fram að Bandaríkin hafi gripið til aðgerða til að sporna við hlýnun jarðar.