Langþráð loftlagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna var sett í Kaupmannahöfn í morgun. Alls eru sendinefndir frá 192 ríkjum á ráðstefnunni. Telja sumir vísindamenn að þetta sé mikilvægasta ráðstefna sem haldin hafi verið í manna minnum. Um 100 þjóðarleiðtogar munu mæta á ráðstefnuna sem stendur yfir í tvær vikur.
Það þykir orðið ljóst að loftslagsráðstefnan komi ekki til með að skila lagalega bindandi samningi sem tekur við af Kyoto bókuninni, þegar hún rennur út 2012. Það sem er hins vegar nýtt er að ríki sem ekki hafa áður komið að borðinu mæta til ráðstefnunnar: stórveldin Bandaríkin, Kína og Indland.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra bindur því vonir við að aðkoma þeirra þýði að hægt verði að ná bindandi samningi eftir ár.
Svandís segir í samtali við Morgunblaðið í dag að ekki verði óskað eftir framlengingu á íslenska Kyoto undanþáguákvæðinu enda fari íslenska stóriðjan undir sameiginlegt evrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir stóriðju, frá 2013, eða frá þeim tíma er gildistími Kyoto-bókunarinnar rennur út en flugið fari undir þetta viðskiptakerfi 2012. Verið sé verið að tala um að það að stóriðjan á Íslandi sitji við sama borð og stóriðjan í Evrópu.
Alls fara 14 fulltrúar íslenska ríkisins á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra fara um næstu helgi. Með þeim fara aðstoðarmennirnir Hrannar Björn Arnarsson og Hafdís Gísladóttir.
Önnur sem fara eða eru farin: Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri, Sturla Sigurjónsson, ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum, og Sigrún Ólafsdóttir sérfræðingur. Þórir Ibsen, sendiherra og formaður samninganefndarinnar. Frá umhverfisráðuneyti: Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri, Hugi Ólafsson skrifstofustjóri og Stefán Einarsson sérfræðingur. Frá utanríkisráðuneyti: Ingibjörg Davíðsdóttir skrifstofustjóri. Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti: Þorsteinn Tómasson skrifstofustjóri. Frá iðnaðarráðuneyti: Sveinn Þorgrímsson. Þá er vitað að von er á einhverjum þingmönnum og fulltrúum félagasamtaka héðan.