Stálu 740 milljónum kr. frá öryggisfyrirtæki

Þjófar nýttu sér einlægan knattspyrnuáhuga Brasilíumanna til þess að stela um 740 milljónum kr. frá fyrirtæki sem sérhæfir sig í peningaflutningum, en á sama tíma og þeir létu til skarar skríða fylgdist þjóðin með kappleikjum í efstu deild í sjónvarpi.

Þjófnaðurinn átti sér stað í borginni Sao Paulo um helgina. Lögreglan segir að þjófarnir hafi komist inn í húsið í gegnum 150 metra löng göng sem þeir hófu að grafa fyrir um fjórum mánuðum. Göngin lágu yfir í lítið hús sem þeir höfðu tekið á leigu skammt frá fyrirtækinu.

Þeim tókst einnig að slökkva á öryggismyndavélum í húsnæðinum í um eina mínútu.

Öryggisvörður, sem var á vakt umræddan dag, segist hafa heyrt einhver læti í húsinu. Hann aðhafðist þó ekkert þar sem hann hélt að hávaðann mætti rekja til flugelda sem æstir knattspyrnuáhugamenn voru að sprengja í nágrenninu.  

Ekki hefur tekist að hafa hendur í hári þjófanna.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert