Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í morgun að minnst 110 þjóðarleiðtogar hygðust taka þátt í síðustu dögum ráðstefnunnar í næstu viku. Hann lýsti ráðstefnunni sem „tækifæri sem heimsbyggðin hefur ekki efni á að láta sér úr greipum ganga“ til að afstýra loftslagsbreytingum sem gætu haft mjög alvarlegar afleiðingar.
Á meðal þeirra sem ætla að mæta á ráðstefnuna eru Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, Manmohan Singh, forsætisráðherra Indlands, og leiðtogar aðildarlanda Evrópusambandsins, þeirra á meðal Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti og Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.
Connie Hedegaard, sem stjórnar ráðstefnunni, sagði að alls hefðu 194 ríki undirritað rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC).