Vaxandi viðskipti með svikin lyf í ríkjum ESB

Sverrir Vilhelmsson

Viðskipti með fölsuð lyf í ríkjum Evrópusambandsins (ESB) hafa farið vaxandi. Tollverðir hafa lagt hald á 34 milljónir svikinna tafla á aðeins tveimur mánuðum. 

Gunter Verheugen, sem fer með iðnaðarmál í framkvæmdastjórn ESB, lýsir miklum áhyggjum af þróuninni í samtali við þýska blaðið Die Welt í dag. Hann segir lyfjasmyglið langt umfram verstu hrakspár.

Meðal lyfja sem gerð hafa verið upptæk undanfarið eru fúkkalyf, krabbameinslyf og stinningarlyfið viagra. Einnig lyf gegn malaríu, verkjalyf og lyf gegn kólesteróli.

Verheugen segir að ESB muni grípa til aukinna aðgerða til að stemma stigu við verslun með svikin lyf.„Fjöldi svikinna lyfja sem berst til Evrópu eykst stöðugt. Af þessu hefur framkvæmdastjórnin þungar áhyggjur,“ segir Verheugen.

Í skýrslu ESB frá í júlí segir að stór hluti lyfja sem gerður var upptækur árið 2008 hafi reynst framleiddur í Indlandi.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert