Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) telur að þessi áratugur verði hlýjasti áratugurinn í heiminum frá því að mælingar hófust.
„Áratugurinn 2000-2009 er mjög líklega sá hlýjasti frá því að mælingar hófust, hlýrri en síðasti áratugur, sem var hlýrri en áratugurinn þar áður,“ sagði Michael Jarraud, framkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Veðurstofa Bretlands birti í dag gögn frá hundruðum veðurathugunarstöðva víða um heim þar sem fram kemur að yfirborðshitinn í heiminum hefur aukist verulega á síðustu 150 árum. Hlýnunin hefur numið 0,15 gráðum á Celsíus á áratug frá miðjum áttunda áratugnum, samkvæmt gögnum bresku veðurstofunnar.