Fréttaskýring: Mótmælendur bjóða yfirvöldum birginn

Frá mótmælum í gær
Frá mótmælum í gær Reuters

Lögregla beitti kylfum og táragasi til að leysa upp mótmæli stjórnarandstæðinga í Teheran, höfuðborg Írans, í gær. Óstaðfestar fréttir herma að einnig hafi skotvopnum verið beitt. Mótmælin fóru fram við háskóla og á fjölförnum stöðum í borginni og kyrjuðu þátttakendur kjörorð á borð við „dauðinn hirði harðstjórann“ og „óttist ekki, við stöndum öll saman“.

Reglulega hefur verið mótmælt í Íran frá því Mahmoud Ahmadinejad var lýstur sigurvegari í forsetakosningunum í sumar þrátt fyrir sterkar vísbendingar um kosningasvik. Mótmælendurnir saka Ahmadinedjad um að hafa stolið atkvæðum sínum og rænt Mir Hossein Mousavi sigri. Ekki er vitað hvað margir mótmælendur hafa látið lífið í aðgerðum lögreglu, en rúmlega 80 stjórnarandstæðingar hafa fengið þunga fangelsisdóma og í það minnsta fimm verið dæmdir til dauða.

Mikill viðbúnaður var í Teheran í gær vegna svokallaðs stúdentadags, sem haldinn er árlega 7. desember til að minnast þriggja námsmanna, sem leyniþjónusta Íranskeisara myrti 1953. Morðin áttu sér stað aðeins nokkrum mánuðum eftir að Mohammad Mossadeq, sem kosinn var forseti í lýðræðislegri kosningu, var steypt af stóli með stuðningi Bandaríkjamanna og Mohammad Reza Pahlavi tók völdin.

Erfitt er að átta sig á umfangi mótmælanna í gær vegna þess að erlendum fjölmiðlum er meinað að segja frá þeim og voru leyfi þeirra fáu erlendu fjölmiðlamanna, sem eftir eru í landinu, afnumin frá mánudegi til miðvikudags. Um helgina var lokað á netið í Íran og tilkynnt að slökkt yrði á farsímakerfinu.

Á heimasíðum stjórnarandstöðunnar var fólk hvatt til að safnast saman við Teheran-háskóla. Stúdentar við Amir Kabir-háskóla hvöttu almenning til að koma í háskólana „til þess að við getum mótmælt valdaráninu einni röddu“. „Grænir háskólastúdentar við íranska háskóla,“ stóð undir yfirlýsingu þeirra. Grænt var einkennislitur Mousavis í kosningabaráttunni. Mousavi og Mehdi Karroubi, sem einnig bauð fram gegn Ahmadinedjad í forsetakosningunum í sumar, vöruðu við því að öryggissveitir myndu örugglega ganga hart fram.

Fréttastofur höfðu í gær eftir sjónarvottum að um eitt þúsund vopnaðir verðir, svonefndir basiji, hefðu verið við Teheran-háskóla. „Óeinkennisklæddir lögreglumenn kvikmyndu atburði inni á háskólalóðinni og tveir mótmælendur voru handteknir,“ sagði heimildarmaður fréttastofunnar AFP.

Sjónarvottur sagði að þetta hefði verið eins og „leikur kattarins að músinni þar sem basiji eltu mótmælendur um torg og hliðargötur í miðborg Teheran“.

Pahlavi flúði frá Íran í janúar 1979 og í apríl var landið lýst íslamskt lýðveldi. Örlög háskólanemanna þriggja, sem var minnst í gær, voru tákn um stjórnarfar keisarans. Nú eru háskólanemar í röðum þeirra, sem mótmæla klerkastjórninni í Íran og enn er brugðist við með valdi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert