Ný aðferð við aftökur í Bandaríkjunum

Kenneth Biros.
Kenneth Biros. AP

Yfirvöld í Ohio í Bandaríkjunum hafa tekið fanga af lífi með einni banvænni sprautu í stað þess að nota þrjár, sem eru með mismunandi blöndu. Ríkið er það fyrsta í Bandaríkjunum sem beitir þessari aðferð.

Kenneth Biros, sem var 51 árs, var tekinn af lífi þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna varð ekki við lokaáfrýjun hans. Hann hafði verið sakfelldur fyrir morð á 22 ára gamalli konu árið 1991.

Nýja aðferðin var kynnt til sögunnar vegna þess að menn óttast að fangar geti fundið fyrir gríðarlegum sársauka ef fyrsta sprautan af þremur virkar ekki sem skyldi.

Gagnrýndur segja hinsvegar að verið sé að gera tilraunir á mönnum. Þessu vísa yfirvöld á bug.

Biros var úrskurðaður látinn um 10 mínútum eftir að hann var sprautaður. Skv. fyrri aðferðum létust fangarnir að meðaltali um sjö mínútum eftir að hafa fengið sprauturnar þrjár.

Ferlið tók hins vegar um 43 mínútur í heildina. Það tók um hálftíma fyrir þá sem framkvæmdu aftökuna að finna nægilega góða æð til að sprauta lyfinu í.

Nýja aðferðin var kynnt til sögunnar eftir að yfirvöldum mistókst að taka fanga af lífi í Ohio í september sl. Þá tók það um tvær klukkustundir að finna góða æð til að sprauta lyfjablöndunni í.

Í framhaldinu var öllum aftökum frestað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka