Svínaflensan skemmir lungun

Svínaflensunni svipar til spænsku veikinnar 1918.
Svínaflensunni svipar til spænsku veikinnar 1918. Reuters

Svínaflensuveiran veldur skemmdum á öllum loftveginum, allt frá barkanum og djúpt niður í lungun líkt og veirurnar sem ollu  heimsfaröldrum inflúensu 1918 og 1957. Afleiðingarnar eru ólíkar þeim sem venjulega sjást í árstíðabundinni inflúensu, að því er segir í skýrslu sem birt var i dag. 

Vísindamenn við Þjóðarheilbrigðisstofnun Bandaríkjanna (National Institutes of Health - NIH) og yfirmaður meinafræðideildar New York borgar rannsökuðu vefjasýni úr 34 sjúklingum sem dóu af völdum svínainflúensu fyrr á þessu ári.

Jeffery Taubenberger veirufræðingur, sem er í hópi vísindamannanna, segir að þeir hafi fundið ummerki um skemmdir í efri og neðri loftvegunum. Í öllum tilvikum hafi efri loftvegir - barki og  lungnapípur - verið bólnir og í sumum tilvikum mjög skemmdir.

Í meira en helmingi tilfellanna, eða 18 tilvikum, fundust merki um skemmdir neðar í loftvegunum eða í berkjunum. Í 25 tilvikum fundu vísindamennirnir merki um skemmdir í lungnablöðrunum (alveoli). 

Taubenberger sagði að svo virtist sem sjúkdómseinkennum af völdum svínaflensuveirunnar svipðaði mjög til þeirra sem inflúensuveirur í heimsfaröldrum 1918 og 1957 ollu. Þessi einkenni séu ólík þeim sem árstíðabundin inflúensa valdi. Þau einkenni sjáist einkum í efri loftvegum, en ekki djúpt niðri í lungunum.

Rannsóknin staðfesti einnig hvernig A(H1N1) veiran lagðist mun þyngra á ungt fólk en eldra fólk. Aðeins einn hinna látnu sem rannsakaðir voru var kominn yfir sextugt. Af þessum 34 sem voru rannsakaðir voru 24 undir fimmtugu.

Níu af hverjum tíu voru með undirliggjandi sjúkdóma. Þar á meðal hjartasjúkdóma og öndunarfærasjúkdóma, veiklað ónæmiskerfi. Einnig voru í hópi hinna látnu vanfærar konur.  72% þeirra sem voru rannsakaðir voru í yfirþyngd og nærri helmingurinn var hættulega offeitur.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í netútgáfu Archives of Pathology and Laboratory Medicine.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert