Vindorkubúum fjölgar of hratt

Vindorkubúum hefur víða fjölgað svo hratt í Kína að farið er að bera á offramboði. Fram kemur í kínverska dagblaðinu China Daily að stefnt sé að því að árið 2020 komi 15% af frumorkuframboðinu úr endurnýjanlegum orkuuppsprettum og komi þar með í stað 600 milljón tonna af kolum það árið.

Vindorkuframleiðsla hefur stóraukist í Kína á þessum áratug og farið úr 350 megawöttum árið 2000 í 12 gígawött í ár. En seinni talan jafngildir 17,4 Kárahnjúkavirkjunum.

Kínversk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að draga úr orkunotkun á hverja einingu verðmætasköpunar í hagkerfinu um 45% fyrir árið 2020 miðað við árið 2005 og þar með stórauka orkunýtni í landinu.

Skammt er síðan Kína fór fram úr Bandaríkjunum sem mesta losunarríki á gróðurhúsalofttegundum í veröldinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka