Samningamenn þróunarlanda hafa gagnrýnt harkalega drög Dana að samkomulagi um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn.
Drögunum var lekið í fjölmiðla og viðbrögðin við þeim endurspegla djúpstæðan ágreining milli auðugra iðnríkja og þróunarlanda. Svonefndur G77-hópur þróunarlanda fordæmdi drög Dana sem voru sakaðir um að draga taum iðnveldanna í veigamestu deilumálunum.
Súdanski sendimaðurinn Lumumba Stanislas Dia Pin, sem fer fyrir G77-hópnum, sagði að drögin hefðu stefnt loftslagsráðstefnunni í hættu og aukið líkurnar á því að hún færi út um þúfur.
Þróunarlöndin vilja ekki skuldbinda sig til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda nema iðnríkin dragi úr losuninni um að minnsta kosti 40% fyrir árið 2020 miðað við árið 1990.