Efasemdir um virkni tamiflu

Reuters

Sérfræðingar hafa miklar efasemdir um virkni veirulyfsins tamiflu gegn svínaflensuveirunni, að því er fram kemur í grein í tímaritinu British Medical Journal.

Í greininni kemur fram að vísindamenn, sem rannsökuðu virkni tamiflu, hafi komist að þeirri niðurstöðu að lyfið hafi haft lítil áhrif á smitnæmi og einkenni flensunnar í fullorðnu fólki sem er heilbrigt að öðru leyti. Ekki hafi komið fram nægar upplýsingar um hvort lyfið dragi úr fylgikvillum flensunnar meðal fólks sem er að öðru leyti heilbrigt.

Aðalritstjóri British Medical Journal, Fiona Godlee, sagði að mörgum mikilvægum spurningum væri enn ósvarað um virkni tamiflu. „Stjórnvöld úti um allan heim hafa eytt milljörðum punda í lyf sem vísindasamfélagið telur sig nú ekki geta metið,“ sagði hún.

Lyfjafyrirtækið Roche, sem framleiðir tamiflu, áætlar að salan á lyfinu í ár nemi alls 1,6 milljörðum punda, sem svarar 320 milljörðum króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert