Evrópusambandið hefur slitið samningaviðræðum við Norðmenn um fiskveiðar á næsta ári. Bæði Lisbeth Berg-Hansen sjávarútvegsráðherra og Audun Maråk framkvæmdastjóri samtaka útgerðarmanna lýsa vonbrigðum með ákvörðunina.
Í samtali við fréttastofuna NTB segir Maråk það vonbrigði hvernig komið væri, en hann tók þátt í samningunum fyrir hönd útgerðarmanna. Hann segir samtökin og fiskvinnsluna styðja afstöðu stjórnvalda í viðræðunum.
Maråk segir að fulltrúar ESB hafi tjáð Norðmönnum, að viðræðuslitin muni hafa afleiðingar í för með sér varðandi aðra gildandi veiðisamninga, svo sem varðandi kolmunna.
Ein afleiðing viðræðuslitanna er að ekki verða ákveðnir heildarkvótar fyrir sameiginlega fiskistofna í Norðursjó og Skagerak.
Fyrr í vetur sleit ESB viðræðum við Norðmenn um makrílveiðar í lögsögu sambandsins.